Icelandic Startups í samstarfi við Nova og Grósku hafa nú annað árið í röð keyrt viðskiptahraðalinn Startup SuperNova sem ætlað er að hraða vexti sprotafyrirtækja með því að keyra þau í gegnum 10 vikna prógramm. Viðskiptahraðlinum lýkur formlega með fjárfestadegi á morgun en hægt verður að finna beina útsendingu af viðburðinum, sem hefst kl. 13 á morgun, á vef Viðskiptablaðsins.

Elsa Bjarnadóttir hjá Icelandic Startups opnar viðburðinn en síðan mun Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, ávarpa samkomuna. Erlingur Brynjúlfsson, meðstofnandi og CTO hjá Controlant, verður með erindi en hann hefur leitt vöruþróun fyrirtækisins síðustu 10 ár.

Sprotafyrirtækin tíu, sem voru valin úr 85 umsóknum til að taka þátt í hraðlinum í sumar, munu síðan stíga á svið og hafa þau 5 mínútur til að kynna sig. Í kjölfarið munu þau svara spurningum úr pallborði en í því sitja Magnús Scheving athafnamaður og Jenný Ruth Hrafnsdóttir, meðeigandi Crowberry Capital.

Sjá einnig: Myndir - Teymin í Startup Supernova

Fyrirtækin sem kynna eru fjölbreytt: IðunnH2 stefnir á framleiðslu á vetni til útflutnings, Wildness framleiðir sjálfbæran útivistarfatnað, meðal annars úr plasti sem fangað er úr hafinu, og Swapp Agency sýnir vel hvernig hægt er að nýta tækifæri í krísum en þau hafa sérhæft sig í endurstaðsetningu starfsfólks til að mæta aukinni þörf fyrir fjarvinnu milli landa.

Sprotafyrirtækin sem taka þátt í hraðlinum hafa síðustu 10 vikur sótt vinnustofur í gerð viðskiptaáætlana, markaðssetningu, vöruþróun og öðru sem nauðsynlegt er fyrir fyrirtæki að þekkja til að ná árangri. Til viðbótar við vinnustofurnar hafa þau farið í yfir þrjátíu persónuleg viðtöl við reynslubolta úr viðskiptalífinu sem hafa gefið þeim endurgjöf á þeirra hugmyndir og framkvæmd.

Nova er stærsti bakhjarl Startup Supernova og um ákvörðun Nova að styðja við nýsköpun á Íslandi af svo miklum krafti hafði Magnús Árnason , framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar eftirfarandi að segja:

„Líkt og með uppbyggingu okkar á 5G þá lítum við á Startup SuperNova sem hraðbraut framtíðarinnar og segjum stundum að við byggjum dansgólfið svo allir geti dansað. Startup SuperNova er ætlað snjöllum og skapandi, hagnaðardrifnum hugmyndum sem geta vaxið langt út fyrir landsteinana. Það er ánægjulegt að vera komin núna annað árið í röð með flott fyrirtæki sem hafa tekið skjótan þroska með hjálp Startup SuperNova og það verður spennandi að sjá þessi fyrirtæki einfalda og bæta okkar líf í framtíðinni.“

Huawei kom inn sem sérstakur stuðningsaðili við eitt teymi í ár og völdu þau að vinna með FOMO, sem er að vinna með nýstárlegar nálganir í greiðslum á vörum og þjónustu.

Elsa Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Icelandic Startups, sá um keyrslu á hraðlinum og segir hún að stemningin hafi verið mjög góð í sumar og þau séu öll þakklát fyrir að hafa getað keyrt prógrammið á staðnum en í fyrra fór hraðallinn að miklu leyti í gegnum fjarfundabúnað.

Sigurður Ólafsson sem leiðir viðskiptaþróun Grósku, sem er einnig stuðningsaðili Startup SuperNova:

„Það er stefna aðstandenda Grósku að húsið verði miðstöð nýsköpunar á Íslandi um ókomin ár. Okkar von er sú að öflugustu fyrirtæki landsins eftir 10-15 ár hafi stigið sín fyrstu skref í Grósku og þess vegna styðjum við grasrótina og hraðla eins og Startup SuperNova.“