*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Innlent 22. október 2020 12:54

Lokast gæti á fiskmarkaði Bandaríkjanna

Ef íslensk stjórnvöld skila ekki inn upplýsingum um aðgerðir gegn meðafla sjávarspendýra virkjast ákvæði um innflutningsbann.

Ritstjórn
Andanefja á sundi við Reykjavík, en hvölum, selum og fuglum hættir til að festast í fiskveiðineitum sem lágmarka þarf til að áfram megi flytja inn fisk til Bandaríkjanna eftir rúmt ár.
Haraldur Guðjónsson

Takist Íslendingum ekki að uppfylla kröfur bandarískra stjórnvalda um veiðar án tiltekins magns af meðafla sjávarspendýra og fugla, munu Bandaríkin að öllum líkindum loka fyrir innflutning sjávarafurða frá landinu í ársbyrjun 2022.

Fiskifréttir greinir ítarlega frá málinu, en þessi systurmiðill Viðskiptablaðsins fjallaði fyrst um málið í árslok 2017, en nú hafa stjórnvöld til loka febrúar á næsta ári til að skila upplýsingum um meðafla og aðgerðir til að lágmarka hann og uppfylla kröfur um vernd sjávarspendýra við veiðar og fiskeldi.

Innflutningsbannið byggir á lögum til verndar sjávarspendýrum sem sett voru í Bandaríkjunum snemma á áttunda áratugnum, þar sem gerðar eru kröfur um leyfilegt hlutfall meðafla sjávarspendýra í fiskveiðum.

Árið 2016 var svo bætt við svokölluðu innflutningsákvæði við lögin, sem setur öðrum ríkjum sömu skilyrði og eiga við um veiðar við strendur Bandaríkjanna, en reglurnar taka gildi 1. janúar 2022.

Þorlákur Halldórsson formaður Landssambands smábátaeigenda segir vá fyrir dyrum fyrir útflutning íslensks sjávarútvegs til Bandaríkjanna. „Að öllu óbreyttu þá mun lokast á útflutning flestra íslenskra fiskafurða til Bandaríkjanna 1. janúar 2022. Það er mjög alvarlegt mál,“ sagði Þorlákur.

„Tíminn líður. Fyrsti mars verður kominn áður en við vitum af. Þegar fyrsti mars verður kominn þá getur Ísland ekki skilað inn gögnum eftir þann tíma til þess að reyna að fá þessu hnekkt. Það er ekki möguleiki að fá þessum úrskurði hnekkt, engar undanþágur í boði fyrir Ísland og ekkert hægt að gera. Næsti gluggi opnast ekki fyrir okkur fyrr en eftir fjögur ár, það er fyrsta janúar 2026 þannig að ef það verður lokað á okkur, þá verður lokað á okkur í þessi fjögur ár og þangað til málin verða tekin upp að nýju. Ef við verðum búnir að uppfylla þessar kröfur.“

Nánar er fjallað um málið í blaði Fiskifrétta sem kom út í morgun, en blaðið fjallaði einnig um málið árið 2017.