Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja fram breytingartillögur við Icesave-ríkisábyrgðina á Alþingi á allra næstu dögum og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er vonast til að það verði í síðasta lagi í lok næstu viku.

Unnið hefur verið að breytingartillögunum að undanförnu en eftir því sem næst verður komið eru þær ekki að fullu frágengnar. Fulltrúar Íslands, Hollands og Breta munu reyna að ganga frá þeim á næstu dögum. Miðað er við að þeir síðarnefndu geti fellt sig við tillögurnar sem lagðar verða fram á Alþingi.

Þingflokkar Samfylkingar og VG hafa veitt forystumönnum sínum  heimild til að ganga frá málinu. Einstakir þingmenn VG veittu þó þá heimild með fyrirvara, eins og það er kallað, og hafa þeir þar með ekki lofað stuðningi áður en þeir sjá málið í endanlegri  mynd.

EFTA-dómstóllinn hafi síðasta orðið

Alþingi samþykkti Icesave-ríkisábyrgðina í lok ágúst með efnahagslegum og lagalegum fyrirvörum. Þá var það gert að skilyrði að ábyrgðin yrði ekki veitt nema Bretar og Hollendingar féllust á fyrirvarana.

Bretar og Hollendingar hafa, eins og kunnugt er, ekki fallist á þá fyrirvara þingsins að samningar verði teknir upp að nýju árið 2024 standi eitthvað eftir af láninu. Þeir vilja m.ö.o. að það verði tryggt að þeir fái alla upphæðina greidda.

Í hugmyndum að mögulegum breytingartillögum er miðað við að reynt verði að komast til móts við Breta og Hollendinga að þessu leyti, þ.e.a.s. þannig að ábyrgðin falli ekki niður fyrr en lánið er upp greitt. Í því sambandi er m.a. verið að ræða um lengri greiðslutíma.

Bretar og Hollendingar hafa einnig, eftir því sem næst verður komist, gert athugasemdir við að vaxtagreiðslur séu taldar með í höfuðstólnum þegar greiðslubyrðin er reiknuð út miðað við hagvöxt. Þeir vilja að vaxtagreiðslurnar verði teknar út í þeim útreikningum.

Þá vilja Bretar og Hollendingar að það sé skýrt kveðið á um að EFTA-dómstóllinn eigi síðasta orðið í mögulegum ágreiningi um úthlutun úr þrotabúi Landsbankans. Í fyrirvörum Alþingis er hins vegar talað um „þar til bæra úrskurðaraðila" og hvergi niðurneglt að það sé EFTA sem eigi síðasta orðið.

Sem fyrr sagði er nú unnið að því að mæta athugasemdum Breta og Hollendinga og er vonast til að breytingartillögurnar líti dagsins ljós í næstu viku.