Óvíst er hvort það takist að ljúka uppgjöri milli gamla og nýja Landsbankans fyrir lok vikunnar. Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans, sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag að unnið væri að því hörðum höndum svo hægt yrði að ganga frá uppgjörinu fyrir tilsettan tíma.

Þorsteinn Þorsteinsson, fulltrúi stjórnvalda í viðræðunum við skilanefndina, er ekki bjartsýnn á að takmarkið náist. „Það er enn ágreiningur milli samningsaðila um verðmæti þeirra eigna sem voru fluttar úr gamla bankanum yfir í þann nýja," segir hann.

Fjármálaeftirlitið hefur ítrekað þurft að gefa frest til að ljúka þessu uppgjöri.

Nú síðast var frestur gefinn til 9. október. Sem fyrr segir er óvíst hvort það náist.