Hrönn Marinósdóttir segist hafa stofnað Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík eftir að hafa skrifað lokaverkefni til MBA-prófs við Háskólann í Reykjavík um rekstrargrundvöll slíkrar starfsemi hér á landi. „Í verkefninu komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri grundvöllur og þörf fyrir svona hátíð hér og réðist í undirbúning að stofnun RIFF strax að loknu prófi. Ég þekkti nánast engan í íslenskum kvikmyndaheimi þegar ég byrjaði og kannski hafði fólk ekki mikla trú á að ég gæti komið hátíðinni á koppinn. Þáverandi menntamálaráðherra og borgaryfirvöld áttuðu sig á að þetta var verðugt verkefni. Það skipti auðvitað öllu í byrjun að hljóta styrk frá ríki og borg. Og enn þarf ég að reiða mig á styrk ríkis og borgar og raunar er stuðningur þeirra forsenda þess að hátíðin geti sótt aðra styrki, bæði hérlendis og erlendis.“

Hún segir að fljótlega eftir að hafa stofnað hátíðina hafi hún fundið fyrir áhuga og stuðningi meðal kvikmyndagerðarmanna og nú sitja í kvikmyndaráði þau Baltasar Kormákur, Dagur Kári, Sigurjón Sighvatsson, Elísabet Ronaldsdóttir, Friðrik Þór Friðriksson, Valdís Óskarsdóttir og Kristín Jóhnnesdóttir. Þau veiti ráð og aðstoð á ýmsa lund.

„Það skipti líka gríðarlegu máli að komast strax á fyrsta ári í samband við gott fólk erlendis, eins og Helgu Stephenson, stofnanda og fyrrverandi stjórnanda kvikmyndahátíðarinnar í Toronto, en hún hefur eiginlega verið minn mentor í þessum rekstri. Ég áttaði mig á því þegar ég skrifaði lokaritgerðina að þekking á rekstri alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar, eins og þeirrar sem mig langaði til að stofna, væri lítil sem engin hérlendis og því yrði ég að leita út fyrir landsteinana að henni.“