Bor í Valþjófsstaðarfjalli kom upp á yfirborðið í frárennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar um ellefuleytið í gær og lauk þar með við að bora lóðrétt fallgöng, 420 metra löng og 4 metrar í þvermál. Vatn fer í framtíðinni úr Hálslóni um aðrennslisgöng, steypist að lokum 420 metra niður tvenn fallgöng í Valþjófsstaðarfjalli, rennur þaðan í gegnum vélar sem framleiða raforku Kárahnjúkavirkjunar og áfram um svokölluð sográsargöng og frárennslisgöng út í Jökulsá í Fljótsdal.

Lokið var við að bora fyrri göngin í júní síðastliðnum og síðan þá hefur verið unnið við að styrkja í þeim berg ofan frá. Því verki er lokið og komið að því að víkka göngin á 10-12 metra kafla neðst og gera þau köntuð. Nú eru síðari göngin sem sagt tilbúin líka og á næstu vikum og mánuðum verður berg í þeim styrkt til undirbúnings fóðrun í framhaldinu.

Fallgöngin voru boruð neðan frá. Verkið gekk mjög vel og er á undan áætlun.