Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur samþykkt orkusölusamning við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers fyrirtækisins í Helguvík. Samningurinn er gerður í kjölfar viljayfirlýsingar sem Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja skrifuðu sameiginlega undir ásamt Norðuráli 1. júní 2006. Í apríl sl. luku Norðurál og Hitaveita Suðurnesja gerð formlegs samnings um sín raforkuviðskipti í samræmi við viljayfirlýsinguna.

Í frétt OR kemur fram að umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda Norðuráls og Orkuveitunnar stendur yfir en áformað er að afla raforku til rekstursins af Hengilssvæðinu, þar sem Orkuveitan rekur Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Samkvæmt samningnum mun Orkuveitan sjá Norðuráli fyrir 100 MW afli frá því um áramótin 2010/2011.

Orkuveitan selur Norðuráli nú þegar raforku til reksturs álversins á Grundartanga.Fyrstu vélar hennar voru teknar í notkun í október síðastliðnum. Í næsta áfanga verður tekin í notkun 33 MW lágþrýstivél. Orka frá henni mun fara á almennan markað og mun þá um 30% raforkunnar frá Hellisheiði fara á almennan markað. Aflvélar númer fjögur og fimm verða teknar í notkun á næsta ári og framleiðsla á heitu vatni hefst síðan árið 2009. Virkjunin mun geta sinnt væntanlegri eftirspurn eftir heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2025, en fullgerð mun Hellisheiðarvirkjun framleiða 270-300 MW af rafmagni og varmastöð sem afkastar allt að 400 MW.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir í frétt OR að með samningnum sé orkusala frá fyrirhuguðum virkjunum tryggð. ?Það skiptir talsverðu máli fyrir hagkvæmni hitaveitunnar okkar að framleiða rafmagn samhliða heitavatnsframleiðslunni. Með þessari sölu tryggjum við að ný varmastöð á Hellisheiði með tilheyrandi u.þ.b. 30 kílómetra hitaveitulögn til borgarinnar mun ekki kalla á hækkun á heita vatninu.?