Sænsku stórfyrirtækin ABB, Volvo og Saab eru meðal hluthafa í fyrirtækinu Power Circle, sem á næstu þremur árum mun verða stór viðskiptavinur norsku Think rafbílanna sem framleiddir eru í smábænum Aurskog í Noregi. Fyrirtækið hefur pantað 1.000 bíla af þessari gerð sem verða afhentir á næstu þremur árum. Power Circle er hópur sænska fyrirtækja sem hafa tekið sig saman um rannsóknir og útbreiðslu á nýrri tækni á sviði endurnýjanlegrar orku.

Önnur fyrirtæki í hópnum eru orkufyrirtækin Vattenfall og Fortum. Richard Waitz er yfirmaður markaðsdeildar fyrirtækisins. Hann segir að samkomulagið sem nú hafi verið skrifað undir geti haft ýmsar breytingar í för með sér. Það opni gáttir öflugrar rannsóknarvinnu. „Auk þess að kaupa 1.000 bíla á næstu þremur árum opnar samstarfið fyrir aðgang að umfangsmiklu rannsóknarumhverfi sem við munum geta nýtt okkur til fullnustu,“ segir Waitz.

Bílaverksmiðjan í Aurskog hefur nú í kjölfar talsverðra tafa hafið framleiðslu á bílunum. Nú þegar hafa borist pantanir í 2.000 bíla og áætlar verksmiðjan að afhenda 100 í sumar. Að sögn Waitz hafa tafirnar lítil áhrif haft á áhuga kaupenda. Nýi rafbíllinn frá Think, sem kallast TH!NK city, er með ABShemlum, tveimur öryggispúðum og uppfyllir allar öryggiskröfur jafnt í Evrópu og Bandaríkjunum. Ökudrægið er 170 km og hámarkshraðinn er 100 km/klst. Hann er fáanlegur með alls kyns þægindabúnaði, eins og loftkælingu, aflstýri, sóllúgu, rafstýrðum rúðum, speglum og fleiru.

Áætlað er að hefja sölu á bílnum í Bandaríkjunum á síðari helmingi þessa árs og er Kalifornía meginmarkaðurinn. Í Noregi kostar bíllinn frá 199 þúsund norskum krónum, rétt rúmar 3 milljónir ÍSK. Kaupendur bílsins leigja rafhlöðurnar. Í mars síðastliðnum fjárfesti General Electric 4 milljónum dollara í Think og auk 20 milljónum dollara í rafhlöðuframleiðandann A123 og á sama tíma gerðu Think og A123 samning um að síðarnefnda fyrirtækið framleiddi Li-ion rafhlöður í TH!NK city.