Bandarísk löggjöf varðandi eignarétt á efnum og málmum sem unnin eru úr himinhnöttum á borð við tunglið og loftsteina var staðfest af Barack Obama Bandaríkjaforseta í lok nóvember.

Tæknilega séð eru himintungl og loftsteinar ekki eign neinnar þjóðar, enda ekki beint jarðnesk fyrirbæri - en löggjöfin staðfestir réttindi eigenda geimefna til að nota og hagnast á þeim í Bandaríkjunum.

Það er svo undir öðrum þjóðum komið að staðfesta sambærileg lög fyrir eigin þegna sem tryggir þeim lagalegan eignarétt yfir ójarðneskum vörum.

Mögulegt er að sérvörur á borð við geimvatn og geimgull komi inn á jarðneskan markað innan skamms.

Fyrirtæki eins og Planetary Resources og Deep Space Industries hafa þegar verið stofnuð og fagna löggjöfinni ákaft, þar eð hún veitir þeim ákveðið lögmæti fyrir fjárfestum.

Hér að neðan má horfa á kynningarmyndband frá Deep Space Industries sem minnir óneitanlega á undraheima vísindaskáldsögunnar: