Gera má ráð fyrir því að flugiðnaðurinn á heimsvísu komist betur af á þessu ári en áður var búist við þar sem bæði farþegaflug og fraktflug virðist vera að taka við sér umfram fyrri spár.

Þetta kemur fram í nýjum tölum sem Alþjóðasamtök flugrekenda, IATA, kynntu í vikunni. Enn er gert ráð fyrir að flugrekendur á heimsvísu tapi töluverðu fjármagni á árinu, en þó helmingi minna en áður var spáð.

Þannig gerir IATA ráð fyrir að flugfélög muni tapa um 2,8 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári en í desember sl. gerði spá IATA rá fyrir 5,6 milljarða dala tapi á árinu.

Í skýrslu IATA kemur fram að gert er ráð fyrir 5,6% aukningu í farþegaflugi á milli ára á þessu ári, samanborið við 2,9% samdrátt á milli ára í fyrra. Þá er einnig gert ráð fyrir að eftirspurn í farþegaflugi aukist um 10% á milli ára, samanborið við 11% samdrátt í fyrra.

Þá kemur jafnframt fram í spá IATA að árið verði hvað erfiðast fyrir evrópsk og bandarísk flugfélög. Hins vegar verði útkoma asískra flugfélaga langt um betri. Þannig gerir IATA ráð fyrir að af fyrrnefndu 2,8 milljarða dala tapi muni evrópsk og bandarísk flugfélög saman tapa um 2,2 milljörðum dala en þar af verði stærsti bitinn hjá bandarísku flugfélögunum.

Hins vegar gerir IATA ráð fyrir að flugfélög í Asíu og á Kyrrahafi muni hagnast um 900 milljónir dala auk þess sem flugfélög í rómönsku Ameríku muni hagnast um 800 milljónir dala.