Húsnæðisverð á Írlandi virðist hafa hækkað í fyrsta skipti síðan fyrir efnahagshrunið. Húsnæðisverð þar í landi hefur lækkað stöðugt síðan maí 2007, en nú virðist sem lækkunarferlinu sé lokið, í bili að minnsta kosti. Tölur um húsnæðisverð hækkuðu um 0,2 prósent í maí á þessu ári á mánaðargrundvelli. Markaðurinn virðist því vera að jafna sig eftir mikið verðfall, sem talað hefur verið um sem risavaxna fasteignabólu á Írlandi. Þetta kemur fram í frétt The Guardian um málið.

Frá efsta punkti húsnæðisverðs á Írlandi hefur húsnæði lækkað meira en 50 prósent í verði. Eignasöfn írskra banka hafa hrunið í verðgildi vegna veða í fasteignum og eitt af hverjum sjö húsnæðislánum þar í landi hafa verið í vanskilum á fyrstu þremur mánuðum þessa árs.