Miklar vegaframkvæmdir standa nú yfir víða um borg og hefur það valdið víðtækum truflunum á umferð að í gær hófst gerð göngu- og hjólastígs meðfram Miklubraut, sem virðist hafa þurft að fela í sér að fækkað var um eina akrein austur eftir milli Lönguhlíðar og Rauðarárstígs.

Hringbraut tekur síðan við í beinu framhaldi frá Rauðarárstíg, en nú skiptist hún í Hringbraut gömlu og nýju, sem eru sínum hvorum megin við Læknagarðinn og BSÍ. Munu framkvæmdir á Miklubraut standa yfir fram eftir öllu sumri, fyrst með lokunum í austurátt, síðan í vesturátt.

Malbikunarframkvæmdir um alla borg

Einnig hefur verið eitthvað um lokanir á Suðurlandsbraut vegna malbikunarframkvæmda síðustu daga en auk þess stefnir nú í að Geirsgata verði lokuð vegna framkvæmda við Hafnartorg 20. maí næstkomandi að því er haft er eftir Hrólfi Jónssyni, sviðstjóra framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, í Morgunblaðinu í dag.

„Sú staða er komin upp að við komumst ekki hjá því að loka fyrir akstur um Geirsgötu tímabundið, til að uppbyggingaraðilar á svæðinu geti athafnað sig,“ segir Hrólfur, en verið er að skoða tengingu inn á Sæbraut í gegnum Tryggvagötu og Kalkofnsveg.

Olíuflutningar úr Örfirisey um Hringbraut

Þess má vænta að framkvæmdirnar hafi mikil áhrif á olíuflutninga úr Örfirisey, sem og þungaflutninga til og frá Reykjavíkurhöfn, sem verði þá að fara í gegnum miðbæ Reykjavíkur eða í kringum hann út á Hringbraut, þar sem eins og áður segir má búast við truflunum á umferð fram eftir sumri.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir bagalegt að loka þurfi Geirsgötu, því það muni auka enn frekar þá miklu umferð sem sé um Hringbraut.

Framkvæmdir á Miklubraut bætast ofan á

„Umferðin er nú þegar mikil um hana og ofan á bætast síðan framkvæmdir á Miklubraut við Klambratún sem eiga eftir að valda miklum töfum,“ segir Guðbrandur sem vísar einnig í miklar malbikunarframkvæmdir í sumar líkt og áður var nefnt, svo búast megi við miklum töfum á umferðinni í sumar.

„Þetta er að vísu illskásti tími ársins til stórra framkvæmda á gatnakerfinu enda fólk í sumarfríum og skólar borgarinnar lokaðir. Það er ljóst að þetta mun engu að síður auka álag á okkur en það er lítið sem lögreglan getur gert til að greiða úr umferðinni.“