Lokun á fjölda stofnana á vegum bandaríska ríkisins og ríkisfyrirtækjum í dag hefur ekki haft mikil áhrif á fjármálamarkaða vestanhafs það sem af er degi. AP-fréttastofan bendir á að lokunin komi til á sama tíma og fjórði ársfjórðungur ársins er að byrja og kunni það að hafa áhrif.

Ástæðan fyrir því að stofnanir og ríkisfyrirtæki lokuðu og stór hluti starfsmanna þeirra sendur heim í launalaust leyfi kemur til vegna þess að þingmenn náðu ekki saman um fjárlög. Annað eins hefur ekki gerst í um 17 ár eða frá því árið 1996. Á meðal þeirra stofnana ríkisins sem loka eru fjölmörg söfn í Washington. Þar á meðal eru Smithsonian-safnið, Helfararsafnið, bandaríska listasafnið í borginni og dýragarðurinn.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,4% þegar viðskipti hófust á hlutabréfamarkaði vestanhafs í dag, S&P-vísitalan hækkaði um 0,7% og Nasdaq-vísitalan hækkaði um 0,9%.