M arel, langstærsta félagið í íslensku kauphöllinni, hefur fækkað kostunum fyrir tvíhliða skráningu félagsins í erlenda kauphöll úr þremur í tvo að því er fram kom í ársuppgjöri félagsins, en hún á að koma til viðbótar við skráningu í íslensku kauphöllina.

Eins og fram kom í viðtali við Árna Odd Þórðarson forstjóra Marel í sérblaðinu Áramótum, í tilefni þess að félag hans fékk viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, þá var félagið að skoða skráningu í kauphöllunum í London, Amsterdam og Kaupmannahöfn, en nú virðist sem London sé búin að heltast úr lestinni.

Segir í uppgjörinu að valið standi nú á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn, og að markmið með tvíhliða skráningu sé að auka seljanleika bréfa frá degi til dags og styðja við frekari vöxt og virðisaukningu.

„Þó að félagið hafi yfir 99% tekna utan Íslands og geri upp í evrum, þá eru hlutabréfin skráð í íslenskum krónum hér á landi. Við teljum að fyrir alþjóðafyrirtækið Marel sé mjög mikilvægt að fá alþjóðlegt leiksvið fyrir hlutabréf félagsins. Verðmyndun og flæði bréfa frá degi til dags verði mun virkara í alþjóðlegri kauphöll. Það er mikill áhugi á félaginu en geta ýmissa fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi er oft skilmálum háð.“ sagði Árni Oddur fyrir áramótin en hann sagði jafnframt það hafa verið mikið heillaskref fyrir Marel að skrá sig í íslensku kauphöllina árið 1992.

„Skráning í alþjóðlega kauphöll er eðlilegt næsta skref í framþróun félagsins. Það er hvorki hollt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að eitt fyrirtæki vegi svo þungt né fyrir okkur að vera svo háð sveiflum á þessum örmarkaði. Yfirtökur á fjölskyldufyrirtækjum eru stór hluti af vaxtarsögu Marel. Við sameinum krafta okkar til að gera enn stærri hluti saman og umbreyta markaðnum. Í flestum tilvikum vilja eigendur þeirra félaga sem við sameinumst eiga áfram eignarhlut í stærri heild og sögu.“

Árni Oddur sagði þá að verið væri að skoða allar kauphallirnar þrjár jöfnum höndum. „Allar þessar kauphallir eru alþjóðlegar og má nefna sem dæmi að í þeirri minnstu sem er Kaupmannahöfn að þá eru um 60% viðskipta frá alþjóðlegum fjárfestum utan Danmerkur,“ segir Árni Oddur sem bendir á að á íslenska markaðnum séu að mestu íslenskir fjárfesta.

„Við höfum sterkar rætur í öllum þessum löndum sem er mikilvægt. Eitt er að skrá sig í erlendri kauphöll en það er bara toppurinn á ísjakanum því það sem skiptir mestu er hvernig mun ganga eftir skráninguna. Sagan sýnir að félög sem velja að skrá sig í landi þar sem þau eru hluti af samfélaginu, gengur betur en þeim sem hafa engar rætur í viðkomandi landi.“

Árni Oddur segir að skoðað hefði verið hvort ætti að afskrá félagið á Íslandi og skrá það erlendis. „Erlendu fjárfestarnir í Marel, íslensku lífeyrissjóðirnir og erlendu bankarnir ráðlögðu okkur frá því. Þegar félag sé með virkan hluthafahóp, sem hefur fylgt féla ginu lengi og stutt vel við vaxtarsöguna eins og Marel hefur, þá væri ekki rétt að afskrá það. Félög sem færu þá leið væru oftast nær í meiriháttar vandræðum og í leit að fjármagni,“ segir Árni Oddur sem segir markmiðið þvert á móti að ná betur til erlendra fjárfesta og fá fram dýpri verðmyndun með bréfin félagsins.

„Við erum ekki að leita okkur að fjármagni við skráninguna, þess vegna hófum við að kaupa eigin bréf til að geta endurútgefið þau við skráningu erlendis. Skuldir Marel eru við neðri mörk þess sem við teljum vera ásættanlegt miðað við reksturinn. Marel skuldar tvisvar sinnum EBITDA. Þetta næsta skref í þroskasögu Marel er gífurlega spennandi og við erum full tilhlökkunar.“