Staða London sem helstu miðstöðvar gjaldeyrisviðskipta í heiminum hefur styrkst á kostnað fjármálamiðstöðva í Bandaríkjunum og Japan samkvæmt nýrri könnun Alþjóðagreiðslubankans (e. Bank for International Settlements). Bankinn kannar þróunina á þriggja ára fresti og hefur hlutfall þeirra gjaldeyrisviðskipta sem fara fram að meðaltali á degi hverjum í Bretlandi, miðað við heildarviðskiptum í heiminum, farið úr 31,3% í 34,1 %, árunum 2004 og 2007.

Hlutur Bretlands í öllum gjaldeyrisviðskiptum heimsins er helmingi meiri en Bandaríkjanna en hlutfall þeirra í gjaldeyrisviðskiptum sem eiga sér stað daglega þar vestra hefur lækkað á tímabilinu, farið úr 19,2% niður í 16,6%. Að sama skapi hefur hlutur Japans ekki verið minni frá því Alþjóðagreiðslubankinn hóf að kanna málið árið 1995 og er nú 6%.

Hin nýja New York
Þróunin kann að skjóta þeim sem óttast um stöðu New York sem helstu fjármálamiðstöðvar heimsins skelk í bringu. Töluverð umræða hefur verið vestanhafs um hvort að regluverk á bandarískum fjármálamarkaði sé að grafa undan samkeppnisstöðu borgarinnar við aðrar fjármálamiðstöðvar, sérstaklega London en tölur Alþjóðagreiðslubankans benda til þess að vægi bresku höfuðborgarinnar hafi verið að aukast á mörgum sviðum fjármálalífsins undanfarin ár. Og þetta veldur mönnum áhyggjum í Bandaríkjunum. Tímaritið New Republic gengur svo langt að kalla London "Hina nýju New York" í grein um málið sem birtist á vef þess á dögunum. Í henni er bent á að öll fyrirliggjandi gögn bendi til þess að meira fé sé aflað í almennum hlutafjárútboðum í London en í New York. Auk þess er millibankamarkaðurinn þar stærri og eftirmarkaðurinn með alþjóðleg skuldabréf nemur 70% af heildarveltunni í alþjóðahagkerfinu.

Í grein sem Charles Schumer, öldungadeildarþingmaður New York-ríkis, og Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, skrifuðu og birtist í Wall Street Journal á dögunum eru taldar upp nokkrar veigamiklar hindranir sem gera það að verkum að fjármálafyrirtæki sjá hag sínum betur borgið með því að vera með höfuðstöðvar sínar annar staðar. Meðal þess sem þeir nefna er Sarbanes-Oxley lögin sem voru sett árið 2002 í kjölfar Enron hneykslisins. Lögin hertu reikniskilareglur en höfðu jafnframt þær afleiðingar að fæla alþjóðleg fyrirtæki frá skráningu hlutabréfa sinna í kauphöllum þar vestra. Jafnframt nefna þeir Schumer og Bloomberg flókið og íþyngjandi regluverki: Tíu eftirlitsstofnanir fylgjast með bandaríska fjármálamarkaðnum á meðan aðeins ein hefur þá skyldu í Bretlandi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.