Af 36 einstaklingum sem telja má til helstu leikenda og gerenda í íslensku viðskiptalífi síðustu árin fyrir bankahrunið er 21 einstaklingur með lögheimili erlendis en þar af hafa 14 flutt lögheimili sitt eftir bankahrun.

Margvíslegar ástæður geta legið fyrir því að flytja lögheimili sitt til útlanda en í ljósi þeirra mála sem snúa að mörgum þeim einstaklingum sem hér um ræðir verður ekki hjá því komist að velta upp öðrum ástæðum en því að menn fari utan til náms eða vinnu.

Rétt er þó að hafa í huga að margir af þessum einstaklingum hafa búið og starfað erlendis um hríð. Því þarf ekki að koma á óvart að þeir eru skráðir með lögheimili erlendis.

Þannig má nefna Björgólf Thor Björgólfsson, sem hefur átt lögheimili í Bretlandi í rúm 16 ár, og eins bræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni sem báðir hafa átt lögheimili erlendis í 8 ár og eins var löngu vitað að Sigurður Einarsson, fyrrv. stjórnarformaður Kaupþings, byggi erlendis en hann flutti lögheimili sitt þangað fyrir 6 árum.

Þá hefur Jóhannes Kristinsson búið í Lúxemborg um áratugaskeið en ekki liggur fyrir skýring af hverju hann flutti lögheimili sitt fyrir ári.

Þegar horft er til þeirra einstaklinga sem listaðir eru upp á myndinni hér á síðunni eru fáir sem flytja lögheimili sín á árunum 2004 fram á seinni hluta árs 2008. Í byrjun september 2008 flutti Hannes Smárason lögheimili sitt til Bretlands.

Athygli vekur hversu margir hafa flutt lögheimili sitt sl. 18 mánuði, eftir bankahrunið í október 2008. Sem fyrr segir hafa 14 af þeim 36 einstaklingum sem taldir eru upp flutt lögheimili sitt á þeim tíma og þar af flestir á seinni hluta síðasta árs. Þá flutti Lárus Welding, fyrrv. forstjóri Glitnis, lögheimili sitt til Bretlands í janúar á þessu ári og það gerðu líka hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir.

Kunnugt er að einhverjir hafa farið til starfa erlendis. Halldór J. Kristjánsson, fyrrv. bankastjóri Landsbankans starfar nú í Kanada og þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings og Ingólfur Helgason, fyrrv. forstjóri Kaupþings á Íslandi reka ráðgjafarfyrirtæki í Lúxemborg.

Hluti sætir rannsókn

Hluti þeirra einstaklinga sem taldir eru upp á myndinni hér á síðunni sætir nú rannsóknum af hálfu hins opinbera hér á landi, m.a. sérstaks saksóknara, auk þess sem efni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis gefur til kynna að einhverjir þeirra muni sæta rannsóknum og eftir tilvikum ákærum þótt ekkert sé enn ljóst í þeim málum.

Þær vangaveltur eru ekki úr lausu lofti gripnar. Nýlega greindi Viðskiptablaðið frá því að til stæði að frysta eigur þeirra Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vegna skattarannsókna. Áður hefur verið greint frá því að til stæði að frysta eigur Baldurs Guðnasonar en hann er með lögheimili á Akureyri. Þá hefur einnig verið greint frá því að í umræddum hóp séu aðilar sem kallaðir hafa verið til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .