Ólympíuleikarnir í London eru að umbreyta borginni í draugabæ. Gestir borgarinnar, sem venja komur sínar í búðir, hótel og leikhús borgarinnar gera það ekki í sama mæli meðan leikunum stendur og veldur því að efast er um efnahagslega innspýtingu vegna leikanna. Þetta kemur fram í frétt Financial Times um málið.

Þar kemur fram að þrátt fyrir að um 100.000 manns komi til London vegna leikanna þá er lítið um að vera, til að mynda hjá leikhúsum borgarinnar, á meðan leikunum stendur. Haft er eftir Nica Burns, forstjóra Nimax Theatres að síðasta vika hafi verið versta vika ársins í öllum sex leikhúsunum sem fyrirtækið rekur.

Talið er að sala á leikhúsmiðum hafi minnkað um 30% undanfarnar tvær vikur miðað við á síðasta ári en auk þess eru hótel byrjuð að lækka verð vegna lítilla bókana. Þá segir forsvarsmaður fyrirtækis sem keyrir ferðamenn um London í opnum rútum að veltan hafi minnkað um 20% miðað við eðlilegt árferði.