Gengi hlutabréfa norrænu kauphallarsamstæðunnar OMX hækkaði um 10% á föstudaginn, sem rekja má til orðróms um að London Stock Exchange (LSE) hafi áhuga á að taka yfir norrænu kauphöllina, segir í frétt Reuters fréttastofunnar.

Kauphöll Íslands á í samstarfsviðræðum við OMX og Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, hefur segist ekki útiloka að viðræðurnar geti leitt til samruna. Kauphöll Íslands ákvað að sameinast ekki OMX í fyrra eftir að ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group sagði það ekki tímabært í skýrslu, sem stjórn Kauphallarinnar lét gera.

Talsmenn OMX og LSE hafa neitað að tjá sig um orðróminn en OMX, sem rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Helsinki, Kaupmannahöfn og kauphallir Eystrasaltsríkjanna hefur gefið til kynna að fyrirtækið hafi áhuga á að taka þátt í samþjöppun kauphalla í Evrópu.

Euronext, sem líkur eru á að muni sameinast kauphöllinni í New York, hefur gert tilraun til að kaupa LSE. Deutsche Börse hefur gert slíkt hið sama.