*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Fólk 25. febrúar 2018 18:02

London yndisleg borg

Ingibjörg Þórðardóttir hefur verið ráðin ritstjóri stafrænna miðla á alþjóðlegra heimasíðum CNN.

Ritstjórn
Nýr ritstjóri hjá CNN hefur búið í London frá árinu 1996 en þangað fór hún upphaflega til að skrifa ritgerð um Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra.
Aðsend mynd

Ég ber ábyrgð á birtingu allra frétta á alþjóðlegu vefsíðunni og að öllum markmiðum um lestur, fjölgun notenda og sölu sé náð á sama tíma og ritstjórnarlegt frelsi efnis sé tryggt,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, nýr ritstjóri stafrænnra miðla á alþjóðlegum vefsíðum CNN. „Ég ber einnig ábyrgð á öllum erlendum fréttum sem birtast á bandarísku síðunni.“ 

Ingibjörg er yfir fréttateymum sem eru staðsett í Lagos, Abu Dhabi og Hong Kong, auk London þar sem starfstöð hennar er en þar hefur hún búið síðan 1995. „Það er alltaf voða gott að koma heim enda saknar maður alltaf vina og fjölskyldu, þó okkur líði mjög vel hér í London, sem er yndisleg borg,“ segir Ingibjörg sem segir það vera sér mjög mikilvægt að halda góðu sambandi heim til Íslands.

„Ég er í ferðahóp með gömlum vinkonum heima og mökum þeirra og fórum við núna síðast í október saman til Jórdaníu, en þar áður fórum við til Marokkó og Tyrklands. Svo erum við fjölskyldan líka dugleg að ferðast saman og förum við yfirleitt í eitthvert gott sumarfrí á mismunandi staði í heiminum og svo förum við eins oft og við getum á skíði.“ 

Þegar blaðamaður ræddi við Ingibjörgu var hún einmitt stödd ásamt allri fjölskyldunni og föður hennar á skíðum í Austurríki, en hún er gift og á tvö börn, sem eru 10 og 13 ára. „Maðurinn minn heitir Chiaka Nwosu, en hann er Breti fæddur í Nígeríu,“ segir Ingibjörg. 

„Hann kom fyrst með mér til Íslands árið 2000 og hann fékk mesta áfallið þegar ég sagði honum að við yrðum að fara í sund, sem hann hafði engan veginn getað séð fyrir sér að gera á Íslandi. En hann varð alveg háður eftir að hafa prófað Laugardalslaugina og nú er það fyrsta sem hann gerir þegar hann kemur til Íslands að fara í sund.“ 

Ingibjörgu hafði alla tíð langað að búa erlendis en upphaflega hafði hún farið til Bretlands til að vinna að BA ritgerð um Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra landsins. „Þetta var gamall draumur og svo hreinlega ílengdist ég hérna.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.