Löndunarbann á síld, sem Evrópusambandið hyggst setja á Færeyinga í næstu viku, mun ekki hafa teljandi áhrif á færeyskt efnahagslíf, að mati Jacobs Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyinga. Vestergaard segir í samtali við Morgunblaðið að Færeyingar muni horfa til nýrra markaða.

„Ég tel að bannið muni ekki hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir Færeyinga. Við flytjum út makríl og síld til markaða utan Evrópusambandsins. Þetta mun því hvorki hafa mikil áhrif á efnahag okkar né útflutning. Við þurfum að finna nýja markaði fyrir síld og makríl,“ segir hann í samtali við blaðið.

Danska utanríkisráðuneytið hefur farið fram á það við Evrópusambandið að refsiaðgerðum gegn Færeyingum verði frestað þangað til að gerðardómur hefði kveðið upp úrskurð í deilu Evrópusambandsins og Færeyja.