Fasteignir og lóðir í eigu lánastofnana nálgast það nú að vera í kringum 1.700 talsins. Til viðbótar þeim 1.500, sem Viðskiptablaðið greindi frá í liðinni viku að væru komin í eigu lánastofnana, hafa bæst við 120 íbúðir á Austurlandi sem Íbúðalánasjóður (ÍLS) hefur nú formlega tekið yfir auk nærri hundrað íbúða sem aðrar fjármálastofnanir hafa eignast á undanfarinni viku.

Margar íbúir ÍLS á Austurlandi Flestar íbúðir Íbúðalánasjóðs eru í Austurlandi, 180 talsins, en þær eru nær allar á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð. Þær 120 íbúðir sem bættust við þær 60 íbúðir sem sjóðurinn átti fyrir eru nú í eigu ÍLS vegna gjaldþrots leigufélags sem átti sjö blokkir á fyrrnefndum stöðum, eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Guðmundur Bjarnason, forstjóri ÍLS, segir sjóðinn þurfa að leigja íbúðirnar út en passa um leið upp á að það hafi ekki of mikil áhrif á markaðsverð til lækkunar á þeim svæðum þar sem sjóðurinn á mest af íbúðum. Guðmundur játar að biðin eftir betri markaðsskilyrðum á fasteignamarkaði geti orðið löng.