„Í fyrsta skipi í mjög langan tíma er ég sammála mati Seðlabankans á stöðu mála,“ segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er öllum ljóst að aðstæður hafa breyst mikið til hins verra á skömmum tíma og allur eftirspurnarþrýstingur sem kann að hafa verið til staðar í hagkerfinu er horfinn og gott betur. Til að lágmarka þann samdrátt sem virðist liggja í kortunum er einfaldlega lífsnauðsynlegt að koma vöxtum niður. Ég tel að vaxtalækkun Seðlabankans nú sé mikilvægt fyrsta skref í vaxtalækkunarferli. Hjá Samtökum iðnaðarins trúum við því og treystum að vextir muni fljótlega lækka enn frekar. Vissulega er verðbólga enn há en allt samband milli stýrivaxta og gengis er rofið og því ætti þessi lækkun ekki að hafa ein og sér áhrif til lækkunar á gengi krónunnar“, segir Bjarni og bætir við verðbólga sé ekki okkar stærsta áhyggjuefni við núverandi aðstæður.

„Mikilvægast er að tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Til að koma í veg fyrir það þarf að tryggja aðgengi að lausafé á viðráðanlegu verði og koma gjaldeyrismörkuðum í gang aftur. Þegar okkur tekst það getum við farið að vinna af fullum þunga við að byggja upp atvinnulífið á ný eftir þetta áfall. Í því endurreisnarstarfi getur iðnaðurinn lagt mikið af mörkum“, segir Bjarni Már Gylfason.