Sky Lagoon hefur ráðið þrjá stjórnendur til að stýra opnun og rekstri baðlóns sem rýs nú á Kársnesi, þau Lovísu Dagmar Haraldsdóttur sem kemur frá Bláa lóninu, Óttar Angantýsson frá Ölgerðinni og Elvu Rut Erlingsdóttur frá Ebson.

Viðskiptablaðið hefur sagt frá áætlunum um að opna baðlónið á Kársnesinu en áætlaður framkvæmdakostnaður við lónið sem á að opna vorið 2021 eru fjórir milljarðar króna. Að félaginu stendur m.a. kanadíska félagið Pursuit sem einnig stendur að Fly Over Iceland.

Lovísa Dagmar Haraldsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri Sky Lagoon. Lovísa starfaði hjá Bláa Lóninu í tæp 11 ár, þar sem hún hóf störf ung í framlínu árið 2007 og sinnti þar öllum störfum. Hún vann sig upp í stöðu deildarstjóra þar sem hún stýrði um 150 manna teymi og öðlaðist þar dýrmæta reynslu sem mun nýtast vel við opnun nýs baðlóns. Lovísa lauk B.Sc. námi í viðskiptafræði hjá Háskólanum í Reykjavík í febrúar 2018 og hefur síðan starfað við mannauðs-, gæða og rekstrarteng mál.

Óttar Angantýsson er sölustjóri Sky Lagoon. Óttar starfaði sem sölustjóri hjá Ölgerðinni frá árunum 2006 til 2019.  Þar stýrði hann hótel- og veitingadeild og tók þar virkan þátt í þeirri gríðarlegu uppbyggingu sem fylgdi auknum umsvifum í veitingageiranum tengt ferðaþjónustu.

Undanfarin ár hefur Óttar aflað sér þekkingar og reynslu sviði andlegrar og líkamlegrar heilsu og hefur meðal annars leiðbeint og aðstoðað stjórnendur og íþróttafólk að ná markmiðum sínum á sviði heildrænar heilsueflingar. Áhugi og reynsla Óttars á heilsurækt sem tengir saman böð, hugleiðslu og jóga fléttast afar vel saman við það sem Sky Lagoon stendur fyrir.

Elva Rut Erlingsdóttir er upplifunar- og markaðsstjóri Sky Lagoon. Elva Rut var upplifunarstjóri Bláa Lónsins á árunum 2011 til 2017. Þar tók hún þátt í ýmsum nýsköpunarverkefnum á sviði upplifunarhönnunar ásamt því að taka þátt í uppbyggingu á the Retreat by Blue Lagoon. Árið 2009 tók Elva Rut þátt í uppbyggingu á Bjórskóla Ölgerðarinnar og starfaði sem skólastjóri hans til ársins 2011.

Þar á undan starfaði hún á fjármálasviði hjá Tommy Hilfiger Group BV í Amsterdam. Frá árinu 2017 hefur Elva Rut séð um þjónustuupplifun, markaðsmál og stefnumótun fyrir Ebson ehf. Elva Rut er með BS gráðu í Viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og mastersgráðu í Luxury Marketing Management frá Istituto Europeo di Design á Ítalíu.

„Það eru svo mikil forréttindi að fá starfa í ferðaþjónustu og vinna í umhverfi sem skilur eftir sig góðar tilfinningar og ævilangar minningar hjá gestum. Við getum ekki beðið eftir að opna Sky Lagoon og afhjúpa þennan undraheim sem baðlónið verður,” segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon.

„Þrátt fyrir sérstakar aðstæður erum við hvergi bangin og ætlum að opna næsta vor, en að sjálfsögðu höfum við sniðið okkur stakk eftir vexti. Í þessum aðstæðum er mikilvægt að tvinna saman gleði og jákvæðni með skynsemi og reynslu, sem þetta teymi hefur svo sannarlega nóg af.”