„Vöruskiptaafgangur í febrúar var mjög góður. Líkur eru á góðum vöruskiptaafgangi í mars þegar tekjur af loðnuvertíðinni skila sér. Ef verð sjávarafurða og áls helst stöðugt og betri niðurstaða fæst í Icesave deiluna, eru horfur í efnahagslífinu bjartari en síðastliðið haust" segir í umfjöllun IFS greiningar um viðskiptajöfnuðinn, en Hagstofan birti tölur fyrir febrúar í morgun.

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofunni nam afgangur af vöruskiptum í febrúar 13,9 milljörðum króna.. Afgangur af vöruskiptum fyrstu tvo mánuði ársins eru rúmlega 20 milljarðar króna.

„Mikill afgangur af vöruskiptum í febrúar stafar fyrst og fremst af aukningu í útflutningi. Útflutningur var 44,3 milljarðar kr. í febrúar en var 38,7 milljarðar kr. í janúar. Útflutningur sjávarafurða í febrúar nam 16,3 milljörðum kr. en óvenju lítið var flutt út af sjávarafurðum í janúar eða aðeins fyrir um 13 milljarða. Flest bendir til að útflutningur sjávarafurða verði góður í mars en stór hluti tekna vegna loðnuvertíðar mun líklega skila sér inn þá," segir í umfjöllun IFS.

Metútflutningur iðnaðarvara síðan í desember 2008

Útflutningur iðnaðarvara í febrúar var mjög mikill eða um 26,1 milljarður króna. „Þetta er mesti útflutningur iðnaðarvara í einstökum mánuði ef undanskilinn er desember 2008. Hægur bati í verði sjávarafurða og hækkun álverðs síðan síðasta sumar hefur haft jákvæð áhrif á útflutning síðustu mánuði en umtalsverður bati hefur orðið í útflutningi síðustu mánuði," að mati IFS.