„Þar er komið upp verðstríð á milli Hagkaupa og Nettó í sölu lopa en Hagkaup er nú m.a. í eigu ríkisins í gegnum Haga og Arion banka. Þetta er að hafa alvarleg áhrif á alla aðra smásöluaðila sem selja lopa og sinna þjónustu í kringum það," segir Guðmundur Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Álafoss í Mosfellsbæ í nýútkominni Jólagjafahandbók Viðskiptablaðsins.

Hann segir salan hafi verið mjög góð hjá fyrirtækinu í fyrra og fram eftir þessu ári en miklar breytingar hafi orðið á stöðunni nú í haust. Segir hann aðal ástæðuna vera óeðlilega samkeppni ríkisrekinna fyrirtækja við einkareknar verslanir sem og framkvæmdir á vegum ríkisins.

„Stóru fyrirtækin tóku sig til og hafa verið að keyra verðin niður að ég tel með niðurgreiðslum á eigin kostnað og þar með stuðningi ríkisins og fleyta rjómann af sölunni.

Skornir á háls

„Það sem manni þykir verst er að ríkið skuli með þessum hætti stuðla að því að drepa niður verslanir og þjónustuaðila með þessum hætti. Það sama hefur verið að gerast með Húsasmiðjuna þar sem lífeyrissjóðirnir hafa tekið við þessu hlutverki af ríkinu. Menn virðast bara ekki þora að segja neitt. Þetta er samt algjörlega ólíðandi. Á sama tíma og ríkisstjórnin er að tala um að rétta litlu fyrirtækjunum í landinu hjálparhönd þá sker hún þau á háls með hinni hendinni."

Tap vegna vegagerðar

„Svo þurftum við líka að stand í baráttu við Vegagerðina.  Vegurinn til okkar var lokaður í þrjár vikur í október vegna breytinga á Vesturlandsveginum. Á því töpuðum við milljónum. Ég reyndi klóra í bakkann með því að koma fyrir skilti niður við þjóðveg sem vísaði á okkur en það var rifið upp af Vegagerðinni um leið af því að reglur segja að það sé bannað að auglýsa við þjóðveginn. Skilti sem Vegagerðin setti upp voru öll á íslensku og útlendingar sem leið áttu um óku auðvitað framhjá án þess að finna leiðina til okkar."