Fjárfestingarsjóðir, sem stýra um 5.000 milljörðum dala, ætla að losa sig við bréf í olíufélögum. Samtök sem kallast DivestInvest hafa náð að safna undirskriftum og fengið fjárfestingarsjóði með sér í lið, en markmið samtakanna er að auka samfélagslega ábyrgð og fá fjárfestingarsjóði til þess að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum.

Samtökin spruttu upp í bandarískum háskólum þar sem nemendur hvöttu fjárfestingarsjóði skólanna til þess að sniðganga olíuframleiðendur. Í dag eru alls 60.000 einstaklingar hluti af þessum samtökum, en þau má finna í ríflega 76 löndum.

Samtökin hafa þá einnig gagnrýnt Donald Trump harðlega, en í kosningabaráttu afneitaði hann loftslagsbreytingum. Rockefeller fjölskyldan hefur þó byrjað að styðja við samtökin, en forfaðir þeirra John D. Rokefeller auðgaðist gríðarlega á olíu.