Bandarísk húsnæðisyfirvöld munu síðar í dag tilkynna að Fannie Mae og Freddie Mac, stærstu húsnæðislánaveitendur þar í landi, fái heimild til þess að víkja frá ströngum eiginfjárkröfum sem um þau gilda, í því augnamiði að fyrirtækin geti dælt um 200 milljörðum Bandaríkjadala inn á fasteignamarkaðinn. Reuters og Bloomberg-fréttaveitan hafa þetta eftir heimildarmönnum sínum, sem vel þekkja til mála.

Samkvæmt núgildandi reglum eru Fannie Mae og Freddie Mac skylduð til að viðhalda 30% hærra eiginfjárhlutfalli heldur en venjulega tíðkast. Þetta hefur verið gert til þess að tryggja að fyrirtækin séu vel í stakk búinn til þess að mæta tapi á fasteignum sem þau eiga og jafnframt ábyrgjast.

Sérfræðingar telja að með því að losa um þessar ströngu reglur gætu fyrirtækin í kjölfarið aukið útlán sín til fasteignakaupa fyrir um 200-300 milljarða dala til viðbótar. Sú upphæð jafngildir um þriðjungsskerðingu á því aukafjármagni sem þeim hefur hingað til verið skylt að leggja til hliðar. Samfara þessum breytingum er gert ráð fyrir því að fyrirtækin muni heita því að fara í hlutafjáraukningu – sennilega í formi forgangshlutabréfa – í náinni framtíð.

Í frétt Bloomberg segir að áformin gætu farið langa leið með að ná ákveðnum stöðugleika á markaðnum. Húsnæðiskrísan í Bandaríkjunum – sem er álitin sú versta frá því í Kreppunni miklu – hefur orðið þungbærari en ella vegna þrenginga á fjármagnsmörkuðum, þar sem margir Bandaríkjamenn eiga erfitt með að fá húsnæðislán eða ráðast í endurfjármögnun lána.

Gengi bréfa í félögunum hækkaði mikið í gær vegna væntinga um þau væru nálægt því að komast að samkomulagi við bandarísk húsnæðisyfirvöld. Hlutabréf Fannie Mae hækkuðu um 27% - mesta dagshækkun í 25 ár – á meðan gengi bréfa í Freddie Mae hækkuðu um 26%, sem er mesta hækkun á einum degi frá því árið 1988.