Engar áætlanir eru um það hjá stjórnvöldum að hækka skatta á ferðaþjónustuna. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er hins vegar vilji til þess að leggja gistináttagjald af um leið og nýr náttúrupassi verður að veruleika.

Frumvarp um náttúrupassann verður lagt fram núna í vor en sala hans mun samt ekki hefjast fyrir sumarið. Byrjað var að innheimta gistináttagjald í byrjun árs 2012 og skilaði skatturinn tæpum 200 milljónum í ríkissjóð í fyrra. Það var eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnarinnar að draga til baka fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti á gistiþjónustu. Fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið að hækka skattinn úr 7% í 14% en síðasta sumar lagði ný ríkisstjórn fram frumvarp sem kom í veg fyrir þá hækkun. Skatturinn er því 7% og ekkert sem bendir til þess að hann verði hækkaður.

Segist ætla að lækka skatta

Í nýlegri skýrslu Ferðamálastofu sem verkfræðistofan ALTA vann kom fram að skatttekjur af ferðamönnum hefðu numið um 27 milljörðum króna á síðasta ári, auk alls kyns sérgjalda, vörugjalda og tolla.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að breytingar á skattalögum séu að sjálfsögðu á forræði fjármálaráðherra. „Eins og birtist í fjárlögum fyrir þetta ár höfum við hafið skattalækkunarferli eins og boðað er í stjórnarsáttmálanum og við sjálfstæðismenn höfum lengi talað fyrir,“ segir Ragnheiður Elín. Spurð um orð sín á markaðsdögum Icelandair fyrir áramót þar sem hún sagði að skattahækkanir væru ekki á dagskrá segir hún: „Það sem ég sagði á umræddum fundi var að ferðaþjónustan þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin væri með skattahækkanir á sinni stefnuskrá. Þvert á móti væri verið að hefja þá vegferð að lækka skatta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .