Atlantsskip hafa hafið losun og lestun skipa sinna á nýju athafnasvæði félagsins við Hafnarfjarðarhöfn. Fyrsta losun í Hafnarfirði fór fram síðastliðinn laugardag en þá var skipað upp úr Kársnesi segir í frétt félagsins.

Með þessari breytingu er lokið fyrri áfanga af tveimur í flutningum Atlantsskipa til Hafnarfjarðar. Annar áfangi verður flutningur vöruhúsastarfsemi skipafélagsins og skrifstofu til bæjarins. Áætlað er að honum verði lokið í árslok 2007. Þá verður öll starfsemi fyrirtækisins kominn á einn stað í Hafnarfirði.

Atlantsskip og Hafnarfjarðarbær skrifuðu undir samning um kaup á svæðinu í janúar 2006. Svæðið er um 40.000 fermetrar að stærð og flutningurinn gerir Atlantsskipum kleift að þrefalda gámavöll fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að tekjur hafnarinnar aukist um nálægt 50 milljónum króna árlega vegna þessa.