Það kostar 65.800.800 krónur að kaupa allar mögulegar raðir og tryggja sér þannig fyrsta vinning hvernig sem fer, og þar sem fyrsti vinningurinn stefnir í 70 milljónir króna gæti virst sem öruggur hagnaður upp á rúmar fjórar milljónir sé í boði fyrir hvern þann sem hefur bolmagn til að leggja út í hina nauðsynlegu fjárfestingu í röðum. Kemur þetta fram í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Greiningardeildin veltir þó upp nokkrum atriðum sem vert er að hafa í huga áður en hlaupið er út í næsta söluturn og fjárfest í 700.000 lottóröðum. Svo getur farið að tveir eða fleiri kaupi sömu vinningsröðina og skipti með sér vinningnum. Og þá gæti gamanið aldeilis kárnað, eins og það er orðað í Markaðspunktunum.

Miðað við að fyrsti vinningur stefni í 70 milljónir er búist við að tæplega 668 þúsund raðir seljist í vikunni. Við þær bætast svo 658 þúsund raðirnar sem raðafjárfestirinn kaupir, en við það hækkar vinningurinn í tæpar 87 milljónir, svo vænti ábatinn hækkar.

Með þessar tölur í farteskinu má hæglega reikna út hverjar líkurnar eru á því að raðafjárfestirinn sitji einn að vinningnum, eða þurfi að deila honum með einum eða fleiri Lottóspilurum. Á meðfylgjandi mynd sést hvernig upphæðin sem fellur í skaut raðafjárfestisins fellur eftir því sem hann þarf að deila vinningnum með fleiri spilurum, en til viðbótar sjást líkurnar á hverri útkomu fyrir sig. Eins og sjá má er líklegast að hann þurfi að deila vinningnum með einum öðrum spilara og fái helming vinningsupphæðarinnar (36,8% líkur) en næstum jafnlíklegt er að hann hreppi hnossið einn (36,2% líkur).

Mikil, en áhættusöm ávöxtun

„Sé tekið tillit til möguleikans á því að aðrir Lottóspilarar veðji á sömu tölur og raðafjárfestirinn er væntur nettó ábati hans af því að kaupa allar hugsanlegar raðir um ein og hálf milljón eftir að tekið hefur verið tillit til kostnaðarins við fjárfestinguna og ábatans af minni vinningum sem hann getur búist við að fá til viðbótar við fyrsta vinninginn. Það er um 2,3% vænt ávöxtun á fjárfestinguna á einum degi; jafngildi um 387.965% ávöxtunar á ársgrundvelli með vaxtavöxtum.

Hér þarf þó að varast hugtakið „væntur ábati“, því þar er um eins konar meðaltal að ræða – og meðaltalið eitt og sér segir ekkert um dreifingu þeirrar breytu sem stendur að baki. Raðafjárfestirinn þarf að gæta sín sérstaklega á því að þrátt fyrir að þokkalegar líkur séu á því að hann hreppi fyrsta vinninginn einn, og uppskeri þannig ríkulega, eru um 63,8% líkur á því að hann tapi á fjárfestingunni – og þá er spurning hvort að „áhættuálagið“ á fjárfestinguna nægi til að lokka hann inn í næsta söluturn.“

Vekja ber á því athygli að Greiningardeild bankans tekur það fram að þrátt fyrir allt sé hún ekki að mæla sérstaklega með því að nokkur maður kaupi allar Lottóraðirnar.