„Við áætlum að potturinn verði 85 milljónir sem er met,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár en á laugardaginn verður Lottópotturinn sjöfaldur.

Stefán segir það hafa gerst fimm sinnum áður að potturinn verði sjöfaldur en þá hafi hann yfirleitt orðið 60 til 70 milljónir: „Það er okkar ósk að potturinn deilist á sem flesta. Þetta kemur líka á mjög góðum tíma svona rétt fyrir jólin því það er Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfingin sem njóta góðs af sölunni hjá okkur," segir Stefán.

Hann bendir einnig á að þau hjá Íslenskri getspá bjóði öllum þeim sem hljóta vinninga yfir fimm milljónum króna upp á fjármálaráðgjöf þar sem fólki er leiðbeint með hvaða hætti sé best að ráðstafa vinningnum.