Louis Vuitton er ennþá verðmætasta lúxusvörumerki heims, að mati Millward Brown Optimor, en fyrirtækið leggur á hverju ári mat á það hvers virði nokkur lúxusvörumerki eru. Louis Vuitton merkið lækkaði í verði um 12% í fyrra og er nú 22,7 milljarða dala virði, andvirði um 2.800 milljarða króna.

Munurinn á Louis Vuitton og helstu keppinautunum fer minnkandi og ekki aðeins vegna þess að virði merkisins lækkaði milli ára. Í öðru sæti er Hermes sem metið er á 19,1 milljarð dala og er óbreytt frá árinu á undan. Hins vegar jókst virði Gucci um 48% og er metið á 12,7 milljarða dala og þá jókst virði Prada um 63% milli ára og er merkið metið á 9,5 milljarða dala.

Í næstu sætum á eftir risunum fjórum koma svo Rolex, Chanel, Cartier, Burberry, Fendi og Coach.