Sá sögulegi atburður hefur átt sér stað fulltrúi stjórnarandstöðunnar í Simbabve hefur verið kjörinn í embætti þingforseta neðri deildar þingsins í fyrsta sinn frá því að landið varð sjálfstætt árið 1980.

Það var enginn annar Lovemore Moyo, sjóaður herkill úr baráttu stjórnarandstæðinga gegn ríkisstjórn Robert Mugabe forseta, sem hlaut brautargengi í embættið en um það var kosið fimm mánuðum eftir að þingkosningar fóru fram í landinu.

Lovemore er þingmaður Lýðræðishreyfingarinnar (MDC).

Enginn stuðningsmaður Mugabe á þingi bauð sig fram í embættið en flokkur forsetans studdi hinsvegar annan frambjóðenda MDC.

Karen Allen, fréttaskýrandi Breska ríkisútvarpsins (BBC) segir að með þessu hafi Mugabe freistað að halda undirtökunum í þinginu en að með kosningu Lovemore hafi sú ráðagerð farið út um þúfur.

Sem kunnugt er staðan í stjórnmálum Simbabve flókin og viðkvæm. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Morgan Tvsangirai, hefur sett sig á móti því að þing verði kallað saman þar sem að það gæti grafið undan viðræðum hans við Mugabe um hvernig eigi að útfæra stjórn landsins í kjölfar þingkosninganna fyrr á árinu.