Breska félagið Low & Bonar hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að fyrirtækið á í yfirtökuviðræðum við þriðja aðila.

Markaðsaðilar í Bretlandi eru sannfærðir um að Atorka sé þriðji aðilinn sem um ræðir. Magnús Jónsson, stjórnarformaður Atorku, sagðist ekki geta tjáð sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hann.

Gengi bréfa félagsins hefur hækkað jafnt og þétt síðustu vikur, sem menn tengja við yfirtökuviðræðurnar, þrátt fyrir að fyrirtækið hafi verið sektað um tólf milljónir punda (1,35 milljarða íslenkra króna) af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir verðsamráð nýlega.

Low & Bonar segir í tilkynningu til kauphallarinnar í London að ekki sé víst að yfirtökuviðræðurnar leiði til yfirtökutilboðs. Talið er að hugsanlegt kauptilboð Atorku í félagið muni nema um 135 milljónum punda, eða í kringum 15 milljarða króna. Atorka á 22,5 % hlut í félaginu og keypti fyrirtækið plastframleiðslueiningu Low & Bonar fyrr á þessu ári.

Markaðsaðilar telja mjög líklegt að Atorka sé hugsanlegur kaupandi að Low & Bonar. Félögin sömdu um að Atorka gerði ekki tilboð í félagið án samþykkis stjórnar Low & Bonar fyrr en í júlí 2007 þegar Atorka keypti plastframleiðslueiningu félagsins.