Bandaríska byggingavörusmásalinn Lowe´s hagnaðist umfram væntingar á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir að hagnaðurinn dragist saman á milli ára.

Hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðung nam 488 milljónum dala samanborið við 643 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Hagnaðurinn nemur því nú 33 centum á hvern hlut samanborið við 43 cent á hvern hlut á sama tíma í fyrra. Greiningaraðilar á vegum Reuters höfðu gert ráð fyrir hagnaði upp á 28 cent á hvern hlut.

Sala félagsins jókst um 1,4% milli ára og var á þriðja ársfjórðungi um 11,7 milljarðar dala.

Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem félagið hagnast umfram væntingar þrátt fyriraukinn samdrátt í einkaneyslu vestanhafs. Þetta er engu að síður fimmti ársfjórðungurinn í röð sem hagnaður félagsins minnkar.

Í uppgjörstilkynningu Lowe‘s kemur fram að búist er við hagnaðir upp á 1,46 til 1,54 dali á hvern hlut yfir árið í heild. Hagnaður á hvern hlut var 1,86 dalir fyrir síðasta ár.