„Lærdómurinn var dýru verði keyptur og hann er fyrst og fremst sá að við verðum að greina betur áhættuþætti fjárfestinga og dreifa áhættu enn meira en áður," segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, í nýlegu viðtali við nýútkomið blað á vegum Rafiðnaðarsambands Íslands og hefur nú einnig verið birt á heimasíðu Stafa.

„Lífeyrissjóðir munu líka gera meiri kröfur til skilmála í samningum við skuldara og vakta betur en áður það sem gerist til dæmis hjá fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í. Vafalaust munu einhverjir lífeyrissjóðir sameinast og stækka þar með. Þannig verða sjóðirnir burðugri og geta meðal annars komið sér upp nauðsynlegri sérhæfingu og þekkingu til fylgjast með og rannsaka fjármálamarkaði og fjárfestingarkosti. Það er úrslitaatriði að styrkja innviði lífeyrissjóðanna enn frekar," segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs, í tilefni umræðu sem vart verður á opinberum vettvangi og í fyrirtækjum um að nærtækt sé að bæta sér upp kjaraskerðingu vegna efnahagsástandsins í atvinnulífinu með því að hætta séreignarsparnaði.