Hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail hélt á föstudag hóf fyrir Rögnu Ingólfsdóttur Ólympíufara í húsakynnum sínum í Höfðatúni. Ragna keppti eins og kunnugt er í badmintoni á Ólympíuleikunum í London. LS Retail hefur styrkt Rögnu fjárhagslega um eina milljón króna síðan í desember í fyrra vegna undirbúnings hennar fyrir Ólympíuleikana. Ragna var heiðursgestur hjá LS Retail og mætti ásamt unnusta sínum og starfsfólki fyrirtækisins í hófið. Fyrirtækið er jafnframt styrktaraðili íslenska kvennalandsliðsins í handbolta.

Fram kemur í tilkynningu frá LS Retail þar sem hófinu er lýst að Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail,  byrjaði á því að óska Rögnu innilega til hamingju með frábæran árangur og lauk lofsorði yfir hve gott fordæmi hún hefði sýnt á glæstum ferli sínum með því að láta ekkert stöðva sig í að ná settum markmiðum þrátt fyrir mótlæti á köflum. Hann afhenti svo Rögnu styrk frá starfsfólki LS Retail sem vildi verðlauna Rögnu fyrir árangur hennar á Ólympíuleikunum, en einnig til að aðstoða hana við að hefja nýtt líf án badmintonspaðans. Ragna tilkynnti eftir sinn síðasta leik í London, að hún væri hætt keppni og stefni á háskólanám í Bandaríkjunum.

Ragna þakkaði fyrir stuðninginn og sagði hann hafa gert sér kleift að einbeita sér alfarið að æfingum og þátttöku í undankeppnum án þess að hafa peningaáhyggjur. Ragna gaf síðan starfsfólki LS Retail áritaða mynd af sér frá Ólympíuleikunum.

Hér má sjá myndir úr hófi LS Retail.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ragna Ingólfsdóttir gaf LS Retail áritaða mynd af sér á Ólympíuleikunum í London.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ragna Ingólfsdóttir og Magnús Norðdahl.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ragna vígir veitingarnar í boði LS Retail ásamt forstjóranum Magnúsi Norðdahl.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Starfsfólk LS Retail í boðinu. Það styður Rögnu áfram.