Í dag hefst 400 manna ráðstefna LS Retail í Dubai og mun hún standa yfir næstu þrjá daga. Einnig verða haldin námskeið fyrir hlut þátttkanda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. „Ráðstefnan ber heitið conneXion 2015. Alls eru um 400 manns skráðir á ráðstefnuna, fulltrúar viðskiptavina og samstarfsfyrirtækja hvaðanæva úr heiminum. Meginþema þessara árlegu ráðstefnu byggir að þessu sinni á áherslu fyrirtækisins á auðveldari, einfaldari og hraðari hugbúnaðarlausnir.“

Ráðstefnan er haldin í Madinat Jumeirah en þar munu sérfræðingar innan verslunar- og veitingageirans kynna nýjungar á vegum LS Retail og fjalla um framtíðarsýn á þessum markaði sem verður sífellt tæknivæddari með aukinni notkun snjalltækja.

„Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail, Daniel Levine, forstjóri The Avant-Guide Institute auk sérfræðinga frá Adidas, Nordic Choice Hotels og Megamart munu fjalla um hugbúnað LS Retail og hvernig hann getur auðveldað daglegt líf og störf þeirra sem lifa og hrærast í verslunar- og veitingageiranum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.