Í viðurkenningarskyni fyrir framúrskarandi þjónustu og söluafrek hefur íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail ehf. verið valið í Inner Circle og President´s Club hjá Microsoft Dynamics. Þetta kemur fram í tilkynningu frá LS Retail, íslensks hugbúnaðarfyrirtækis sem sérhæfir sig í þróun og sölu á hugbúnaðarlausnum fyrir verslunar- og veitingarekstur á alþjóðamarkaði.

„Inner Circle er úrvalshópur samansettur af mikilvægustu samstarfsaðilum Microsoft Dynamics um allan heim. Í President’s Club fá aðeins inngöngu virkustu samstarfsaðilar Microsoft og árlega hlotnast þessi viðurkenning aðeins þeim 5% söluaðila Microsoft viðskiptalausna sem skilað hafa mestum tekjum af sölu til Microsoft og sýnt fram á mestu söluaukningu á árinu.

LS Retail, ásamt öðrum meðlimum Inner Circle og President´s Club, verður heiðrað á Microsoft Worldwide Partner Conference í Los Angeles, miðvikudaginn 13. júlí næstkomandi. Á ráðstefnunni gefst samstarfsfyrirtækjum færi á að tengjast hvert öðru og starfsfólki Microsoft, auk þess að fræðast um það nýjasta sem Microsoft hefur uppá að bjóða.

Doug Kennedy hjá Microsoft Dynamics, tilkynnti fréttirnar og bauð LS Retail velkomið í þennan virta hóp. Einnig hrósaði hann LS Retail fyrir traust samband við viðskiptavini sína og fyrir stöðugan vöxt og yfirburði í viðskiptum,“ segir í tilkynningu.

„Við erum afar stolt að hljóta þessa viðurkenningu frá Microsoft fyrir vinnusemi okkar og velgengni sem samstarfsaðili þeirra,“ segir Magnús Norðdahl forstjóri LS Retail. „LS Retail hefur náð bestu sölutölum í sögu fyrirtækisins það sem af er árinu 2011, og árið 2010 var það besta í sögu fyrirtækisins. Tilnefningin í Inner Circle og President´s Club hjá Microsoft er afrakstur sem mun hvetja okkur áfram til dáða.”