*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 5. ágúst 2016 18:22

LSH byggður við Hringbraut dýrari

Samtök sem berjast fyrir því að nýr spítali verði byggður á nýjum stað hafna fullyrðingum um að það taki 17-22 ár.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tekur fyrstu skóflustungu að sjúkrahóteli við Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut
Haraldur Guðjónsson

Samtök um betri spítala hafna fullyrðingum heilbrigðisráðherra um að 17-22 ár taki að reisa nýjan þjóðarspítala á nýjum stað.

Vilja samtökin að í stað þess að nýr spítali verði byggður upp á sama stað og núverandi landspítali er staðsettur við Hringbraut verði honum fundinn nýr staður þar sem hægt verði að byggja hann upp frá grunni.

Kosti skattgreiðendur óhemju fjárútlát

„Það er von Samtaka um betri spítala að nýju alþingi takist að vinda ofan af því tjóni vegna glataðra tækifæra sem núverandi áform munu hafa í för með sér enda koma þau til með að kosta íslenska skattgreiðendur óhemju fjárútlát umfram það sem ásættanlegt er, auk þess sem byggingar við Hringbraut verða mun lakari að gæðum og dýrari í rekstri heldur en nýr spítali, byggður frá grunni á besta mögulega stað,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Segir það taka 10-15 árum lengur að byggja á nýjum stað

Kemur þetta í kjölfar svars heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kristjáns Möllers alþingismanns um áætluð lok byggingarframkvæmda nýs Landspítala við Hringbraut og hvenær þau yrðu ef spítalinn yrði byggður á nýjum stað.

Fól ráðherrann Skipulagsstofnun og Framkvæmdasýslu ríkisins að taka saman svar fyrir sína hönd en þar segir að það taki 10 til 15 árum lengri tíma að byggja hann upp á nýjum stað heldur en að ljúka uppbyggingu við Hringbraut, sem ráðgert er að taki sjö ár.

Samtök um betri spítala hafna því alfarið

Hafna Samtök um betri spítala þessum fullyrðingum alfarið og segja fjarri lagi að svo langan tíma taki að reisa nýjan spítala frá grunni á besta mögulega stað á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan ákveðið var að sameina Landspítala-Háskólasjúkrahús og færa hana á einn stað hafa liðið 16 ár og enn eru 7 ár þar til nýbyggingum lýkur við Hringbraut, sem stefnt er á að ljúki árið 2023. 

Plagað af myglu og viðhaldsleysi

„Þá á eftir að gera upp eina 60 þúsund fermetra í eldra og úr sér gengnu húsnæði sem m.a. er plagað af myglu og öðru viðhaldsleysi undanfarna áratugi. Samkvæmt áætlum mun taka 6 ár að ljúka þeim endurbótum. Ef heldur fram sem horfir stefnir í að ferlið í heild taki 30 ár. Lengd framkvæmdatíma ræðst að miklu leyti af vilja, röggsemi og staðfestu,“ segir í tilkynningunni. 

„Bæjarstjóri Garðabæjar hefur bent á að skipulagsmálin varðandi Vífilsstaði þyrftu ekki að taka nema um sex mánuði. Upplýsingar erlendis frá um byggingartíma sambærilegra bygginga og þörf er fyrir hér á landi sýna að í heild tekur um 4 ár að byggja nýjan spítala á aðgengilegu svæði. Að viðbættum skipulagstíma og hönnun er því rýmilegt að gera ráð fyrir 8 árum sé vel að verki staðið og fjármunir tryggðir til framkvæmda.“