Geðþóttaákvarðanir fárra stjórnenda og ógagnsætt ákvarðanatökuferli í heilbrigðisgeiranum getur stórskaðað fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref á markaðnum. Ísland hafi alla burði til að verða draumaland fyrir sprota í heilsutækni en sem stendur gætum við verið að missa af því tækifæri. Þetta var meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Davíðs Þórissonar og Matthíasar Leifssonar, stofnenda Leviosa, á Nýsköpunarviku.

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt kom fram að stofnendur Leviosa teldu sig geta sparað kerfinu þrjá milljarða króna á ári hverju en hið rétt er að þeir telja að lausnin kunni að vera þriggja milljarða virði á ári hverju. Texti fréttarinnar hefur verið leiðréttur í samræmi við það.

Leviosa er íslenskt sprotafyrirtæki sem vinnur að þróun tæknilausna fyrir heilbrigðisþjónustu. Athygli félagsins beinist að mestu leyti að lausn sem dregur úr tíma sem heilbrigðisstarfsfólk eyðir í sjúkraskráningu í tölvu og geta þá þess í stað varið í að auka þjónustustig við notendur þjónustunnar.

Ekki þarf að leita lengi til að finna fréttir af álagi á heilbrigðisstarfsfólk eða frásagnir um fólk sem hefur lent milli skips og bryggju í kerfinu. Álagið hefur síðan aðeins aukist í heimsfaraldrinum og er víða komið að þolmörkum.

Telja sig skapað þriggja milljarða virði á ári

„Við lögðumst í rannsókn fyrir um ári síðan í samvinnu við MBA-hóp í Háskólanum í Reykjavík. Þar lögðum við könnun fyrir 250 heilbrigðisstarfsmenn. Þar kom meðal annars fram að þau sögðust að meðaltali eyða um helmingi af sinni vakt í sjúkraskráningu í tölvu og 74% töldu að núverandi sjúkraskráningarkerfi ýtti undir starfsálag,“ sagði Matthías í erindi sínu. Rannsóknir erlendis benda síðan til þess að hlutfallið þar sé enn hærra.

Markmið stofnendanna er að vinna bug á þessum vanda. Miðað við niðurstöður könnunarinnar, fjölda starfandi á Landspítalanum og 165 klukkustunda vinnumánuð áætla þeir að þar innanhúss séu unnar um 3,9 milljón vinnustundir á ári. Um helmingi þeirra sé varið í töluvinnslu en markmið Leviosa er að minnka þann tíma um helming með forriti sínu.

„Gefum okkur það að okkur mistakist ætlunarverkið. Segjum að við náum til dæmis bara 30% minni tíma í sjúkraskráningu. Þá erum við samt að tala um 580 þúsund klukkustundir sem myndu sparast. Sé það heimfært í hlutföllum á meðallaun lækna og hjúkrunarfræðinga væru það þrír milljarðar í sparnað. Það er tími og peningar sem væri hægt að nýta í að þjónusta sjúklinga betur, draga úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk og jafnvel gefa læknum hálftíma í matartíma á dag í stað þess að vera alltaf á hlaupum,“ sagði Matthías.

Hægfara ríkislausnir eru normið

Vandamálið þekkir Davíð á eigin skinni en hann hefur í um tíu ár starfað sem sérfræðilæknir á bráðamóttöku Landspítalans. Benti hann á að rafræn sjúkraskráning hafi verið innleidd hér á landi fyrir um þrjátíu árum síðan og hafi hún átt að gjörbreyta heilbrigðiskerfinu til hins betra. Raunin hafi hins vegar orðið allt önnur og rafvæðingin hafi skapað fleiri vandamál en hún leysti.

„Rafvæðingin hafði góð áhrif fyrir alla nema starfsfólk kerfisins og staðan er sú að flestir læknar vilja helst fá skráningu með blaði og penna aftur. Á sama tíma og tæknin flýgur áfram hefur engin framþróun orðið í þessum geira og hægvirkar ríkislausnir eru normið,“ sagði Davíð.

Að hans mati er stór hluti vandans sá að lausnir eru þróaðar án aðkomu þeirra sem koma til með að nota þær, af forriturum sem hafa aldrei umgengist sjúklinga og stjórnendum sem vinna lítið á gólfi sjúkrahúsanna. Verkefnastjórnunin sé í raun eins og „kínverskur hvísluleikur“.

Faraldurinn hafi hins vegar opnað augu fólks fyrir þeim möguleikum sem tæknin býður upp á. Ríki sem við berum okkur reglulega saman við, á borð við Noreg og Þýskaland, hafa til að mynda afráðið að verja milljörðum evra í þróun á tæknilausnum í heilbirgðiskerfinu.

„Margir spá því að „health tech“ verði næstheitasti hluturinn á næstu árum á eftir fjártækni. […] Allsstaðar eru menn að leita leiða til að hámarka notkun tækni í kerfinu og áhrif þessa eru þegar farin að sjást á hlutabréfamörkuðum en virði slíkra félaga hefur margfaldast. Á síðasta ári söfnuðu þau um 8,3 milljörðum dollara og ýmsir áætla að markaðurinn verði um 1.300 milljarðar dollara árið 2025,“ sagði Davíð.

Geðþótti Landspítalans gangi ekki

Ekki þarf langa útreikninga til að sjá að jafnvel þótt Ísland næði aðeins í brot af þeirri köku þá væru áhrifin talsverð, bæði hvað tekjur erlendis frá og atvinnusköpun varðar. Í ljósi þessa væri að vissu leyti sorglegt hvernig staðan væri á Íslandi. Hér væri vissulega allt til alls til að slíkir sprotar gætu skotið rótum og vaxið og dafnað – þekking er til staðar sem og stuttar boðleiðir sem skapi möguleika á að hreyfa sig hraðar en samkeppnin – en þrátt fyrir það gengi ferlið hægt hvað tæknideildir hins opinbera varðar. Má í því samhengi nefna að Leviosa var stofnað árið 2019 en illa hefur gengið að koma lausn félagsins í prófun.

En er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Þróun heilsutækni á Íslandi er að langmestu leyti í höndum hins opinbera. Þar sem embætti landlæknis leiðir þróun rafrænnar sjúkraskrár og Landspítali almennt er talinn vera um 80% af markaðnum. Landspítali er þannig langsamlega stærsti markaðsaðili og því nálaraugað þegar kemur að vexti heilsutæknifyrirtækja á Íslandi. Ábyrgð slíks markaðsrisa sem útungunarstöð í nýsköpunarumhverfi er mikil ,“ sagði Davíð.

Benti hann á að sprotar myndu ekki sækja á Landspítalann í þeim eina tilgangi að afla sér tekna og græða heldur væri mikilvægasta hlutverk spítalans að gefa þeim færi á að prófa sínar hugmyndir og skapa þannig „proof of concept“. Það væri algjör grundvallarforsenda þess að félög gætu sótt sér fjármagn og markaðssett sig erlendis.

„Heilsutækni í eðli sínu reynir stórkostlega á samstarf við spítalann enda innviðir flóknir og öryggiskröfur miklar. Gefur auga leið að geðþóttaákvarðanir fárra stjórnenda eða ógegnsætt ákvörðunarferli getur stórlega skaðað fyrirtæki sem er að stíga sín fyrstu skref. Stofnun sem hefur stærð og burði til að ráða því hvort fyrirtæki blómstri eða ekki, verður að fylgja skýrri stefnu og fyrirmælum stjórnvalda um nýsköpun, þar sem hún hefur sjálf litla hagsmuni af því að leiða nýsköpunarfyrirtæki gegnum sín fyrstu skref.

Aðhald á stofnunina skiptir hér öllu til að tryggja að ákvörðunartökur séu heilbrigðar, gegnsæjar og öllum í hag og að stofnunin veiti ekki nýsköpuninni samkeppni í krafti stærðar sinnar og aflsmuna, til dæmis með eigin hugbúnaðarþróun,“ sagði Davíð og bætti við að þessi atriði myndu skipta öllu máli um það hvort Ísland verði þátttakandi í þeim vexti sem framundan er eða hvort við heltumst úr lestinni.