Nokkurrar togstreitu virðist hafa gætt milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Landspítalans (LSH) við innleiðingu DRG-kerfisins. Fyrrnefnda stofnunin birti haustið 2017 skýrslu um skuggakeyrsluna árið áður. Alvarlegar athugasemdir voru gerðar við þá skýrslu af hálfu LSH, en spítalinn taldi að SÍ hefði „ekki nægilega þekkingu á grunneðli, tilgangi og notagildi“ kerfisins og að ályktanir stofnunarinnar um „tækifæri til hagræðingar væru byggðar á misskilningi“.

Þær athugasemdir komu meðal annars fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, frá 2018, um efnið. Sá punktur fékk litla athygli þá. Þess í stað beindust augun að öðru vandamáli, það er framúrkeyrslum á rammasamningi sérgreinalækna og þeirri staðreynd að kaupandi þjónustunnar, SÍ, hafði í reynd lítið um hana að segja. Þar hafa samningaviðræður gengið illa og er samningnum nú stýrt einhliða með reglugerðarsetningu ráðherra.

Eftir stöðnun liðinna ára virðist vera að koma hreyfing á innleiðingu DRG-kerfisins á nýjan leik. Samningaviðræður voru vel á veg komnar þegar farsóttin náði ströndum landsins en enduðu skiljanlega í salttunnunni meðan böndum var komið á hana. Undir lok síðasta árs var tilkynnt að LSH og Sjúkrahúsið á Akureyri hefðu náð samningum um aðra skuggakeyrslu á kerfinu á þessu ári. Nú er stefnt að því að hefja framleiðslutengda fjármögnun árið 2022. Í kjölfarið er á áætlun að innleiða flokkunina í aðra anga kerfisins.

Erfið leit í málaskrám

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að við innleiðingu kerfisins hafi gengið mjög erfiðlega fyrir SÍ og LSH að ná saman um fjölda eininga sem sinna ber og hve mikið ber að greiða fyrir hverja og eina þeirra. Í janúar 2020 óskaði Viðskiptablaðið eftir því við heilbrigðisráðuneytið (HRN) að fá upplýsingar um hvort málaskrá ráðuneytisins innihéldi minnisblöð og erindi frá árunum 2015-2020 sem vörðuðu innleiðingu kerfisins. Þeirri beiðni var svarað með ósk um að erindið yrði afmarkað frekar. Beiðnin lenti milli skips og bryggju, bæði hjá ráðuneyti og blaðamanni, sökum faraldursins en uppvakningur var gerður úr henni í sumarbyrjun og sambærileg beiðni send LSH og SÍ. Frá LSH og HRN hafa þau svör fengist að erfitt muni reynast að grisja skjalakerfi í leit að umbeðnum gögnum. SÍ hefur ekki svarað vegna sumarleyfa starfsfólks.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .