Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tekur þátt í hlutafjárútboði Icelandair sem stendur nú yfir og lýkur klukkan 16:00 í dag að því er Fréttablaðið greinir frá. Lífeyrissjóðirnir hafa lítið viljað gefa upp afstöðu sína til fjárfestinga í félaginu en aðrir stórir sjóðir eins og Birta, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi eru ekki sagðir hafa skilað inn tilboðum þó aðrir minni sjóðir hafi gert það.

Má gera ráð fyrir að til að sjóðurinn haldi sínum 8,25% hlut þurfi sjóðurinn að kaupa ný bréf fyrir fjórfalt andvirði bréfa sjóðsins í félaginu í dag, eða að lágmarki fyrir tvo milljarða króna.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um útboðið sem hófst í gær, en þar á að safna um 20 til 23 milljörðum íslenskra króna og mun nýja hlutaféð samsvara um 80% af eignarhlut í félaginu.

Stuðningur ríkisins og ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans er talinn geta numið allt að 40 milljörðum króna við flugfélagið ef það nýtir sér allar lánalínur og stuðningsmöguleika að fullu.

Skilaði sjóðurinn, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins, inn skuldbindandi tilboði fyrr í dag, en fjármálaráðuneytið skipar helming, eða fjóra fulltrúa í stjórn sjóðsins á móti tveimur frá BSBR, einum frá BHM og einum frá KÍ.