*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 23. mars 2018 08:03

LSR fékk hluti í Eyri og Norðurturninum

Verðmat á þeim eignum sem fjármálaráðuneytið framseldi til LSR byggði á mati LSR og Lindarhvols.

Snorri Páll Gunnarsson
Fjármálaráðuneytið framseldi eignir upp á 19 milljarða úr Lindarhvoli til LSR sem innborgun á lífeyrisskuldbindingar ríkisins.
Haraldur Jónasson

Hlutir í fjárfestingafélaginu Eyri Invest og í Nýja Norðurturninum við Smáralind voru meðal þeirra eigna sem fjármála- og efnahagsráðuneytið framseldi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) úr safni Lindarhvols í byrjun janúar. Eignirnar samanstanda að mestu af lánaeignum en einnig hlutafé. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Hlutafjáreignirnar eru að stærstum hluta í Eyri og Norðurturninum. Fyrir framsalið átti Lindarhvoll 10% hlut í Eyri, sem er stærsti einstaki hluthafi Marel auk þess að eiga hluti í sprota- og vaxtarsjóðnum Eyri Sprotum og Efni, sem byggir upp nýjar markaðs- og söluleiðir fyrir íslensk fyrirtæki. Ekki er upplýst um einstakar lánaeignir þar sem um er að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar sem varða einstaklinga og fyrirtæki.

Áætlað verðmæti eignanna var 19 milljarðar króna í byrjun ársins. Verðmat þeirra byggði á mati LSR og Lindarhvols, samkvæmt ráðuneytinu. Talið var að eignirnar væru ekki vel fallnar til almennrar sölu og voru þær því framseldar til sjóðsins sem innborgun á skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart B-deild LSR til að hámarka virði þeirra. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs námu 611 milljörðum í lok árs 2016.

Standi umræddar eignir ekki undir því verðmati sem sett var á þær í byrjun janúar leiðir það að öðru óbreyttu til hækkunar á skuldbindingum ríkissjóðs í framtíðinni. Skili eignirnar meiri verðmætum í framtíðinni hefur það jákvæð áhrif á skuldbindingarnar.

5,7 milljarðar eftir

Eignarhaldsfélaginu Lindarhvoli verður slitið á allra næstu vikum, en eftir söluna á Lyfju, stærstu apótekakeðju landsins, í síðasta mánuði hefur félagið komið langstærstum hluta þeirra eigna sem því var falin umsýsla með í laust fé. Er starfsemi félagsins því lokið. Lindarhvoll var stofnað í apríl árið 2016 til að annast umsýslu og sölu stöðugleikaeigna sem ríkið fékk afhent í kjölfar samkomulags við kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er virði eftirstandandi stöðugleikaeigna í Lindarhvoli alls 5,7 milljarðar króna. Að undanskildu skuldabréfi Kaupþings og afkomuskiptasamningi er að stærstum hluta um að ræða kröfur í þrotabú og önnu innheimtumál, lánasamninga, fjáropseignir og óverulegar stöður í einkahlutafélögum. Virði þeirra verður endurheimt með tíð og tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.