A-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur aukið við hlut sinn í fasteignafélaginu Reitum og er nú komið yfir 10% eignarhlutdeild.

Að því er kemur fram í tilkynningu sem send var Kauphöllinni vegna viðskiptanna á félagið nú 10,08% í Reitum en átti áður 9,88%. Félagið bætti því við sig tæplega milljón hlutum í félaginu og á nú 72,9 milljónir hluta.

Ef miðað er við markaðsverð á bréfum Reita þegar þetta er ritað nam heildarupphæð viðskiptanna rúmum 86 milljónum króna.

Fimm stærstu eigendur Reita eru allt lífeyrissjóðir. Þeir eru Gildi, LÍVE, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild, Stapi, og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins B-deild. Miðað við upplýsingar á heimasíðu Reita, sem síðast voru uppfærðar 5. apríl, eiga sjóðirnir fimm samtals 47,43% í Reitum.