Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) jók hlut sinn verulega í fyrirtækjum Bakkavararbræðra og Björgólfsfeðga bóluárið 2007. Milljarða eignir töpuðust þegar þessi fyrirtæki féllu, að því er sagði í frétt Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Enginn lífeyrissjóður tapaði fleiri krónum á hruninu en LSR. Tapið má að stórum hluta rekja til innlendra skuldabréfa og hlutabréfa í íslenskum fyrirtækjum og bönkum sem urðu verðlítil eða jafnvel algerlega verðlaus haustið 2008. Hluti þessara bréfa voru keypt árið 2007.

Árið 2007 jók sjóðurinn eign sína í Bakkavör um 27% og um 34% í Exista, 33% í Landsbankanum og um 250 prósent í Straumi. Tekið er fram í frétt Ríkissjónvarpssins að þá hafi Ögmundur Jónasson núverandi innanríkisráðherra verið formaður stjórnar sjóðsins. Bréfin urðu að mestu að gjalli árið eftir, 2008, en þá var Ögmundur reyndar óbreyttur stjórnarmaður. Heildartap LSR vegna hrunsins var 101 milljarður sem var nærri þriðjungur allra eigna sjóðsins.