Það er ekki oft sem kemur til átaka í stjórnarkjöri skráðra fyrirtækja á Íslandi og í raun má segja að það heyri til undantekninga að stjórnir þeirra séu ekki sjálfkjörnar. Það er þó ekkert sjálfgefið í þeim málum og á aðalfundi Fjarskipta (Vodafone) um miðjan apríl voru sex einstaklingar sem buðu sig fram í fimm stjórnarsæti.

Það verður þó ekki horft framhjá því að lífeyrissjóðir eru nú orðnir mun umsvifameiri í eignarhaldi á skráðum fyrirtækjum en áður var. Þá ber helst að nefna Lífeyrissjóð verslunarmanna (LV) og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Þannig á LV nú tæplega 15% hlut í Icelandair Group og Eimskip og rúmlega 13% hlut í Vodafone. LSR á rúmlega 11% hlut í Icelandair Group og Vodafone og yfir 13% hlut í Högum svo dæmi séu tekin. Á þeim er þó grundvallarmunur þegar kemur að stjórnarkjöri þar sem LV nýtir sér atkvæðarétt sinn á meðan LSR hefur þá stefnu að gæta hlutleysis.

Í starfsreglum stjórnar LSR segir að stjórnin hafi þá meginstefnu að taka ekki afstöðu til þess hverjir sitji í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest í. Þó kemur fram að í undantekningartilvikum taki sjóðurinn afstöðu en þá ákveði stjórn sjóðsins hver skuli vera fulltrúi af hálfu sjóðsins í viðkomandi fyrirtæki. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir í samtali við Viðskiptablaðið að til standi að taka þessar reglur til endurskoðunar. Þær hafi verið settar fyrir hrun og á þeim tíma sem sjóðurinn átti mun minni hlut í skráðum fyrirtækjum en nú. Þórhallur Jósepsson, upplýsingafulltrúi LV, segir í samtali við Viðskiptablaðið að stjórn sjóðsins ákveði öllu jafna eftir tilnefningu formanns hverjum fulltrúar sjóðsins á aðalfundum greiða atkvæði. Það sé í takt við hluthafastefnu sjóðsins sem þegar hefur verið birt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.