Eimskip lækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar í dag eða um 1,9% í 183 milljóna króna viðskiptum. A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) seldi 400 þúsund hluti í flutningafélaginu í dag fyrir 124 milljónir króna. Hlutur LSR í Eimskip stendur  nú í 4,87%, samkvæmt flöggunartilkynningu .

Fasteignafélagið Reginn hækkaði um 1,6% í 460 milljóna króna veltu í dag. Fjárfestar virðast hafa tekið vel í árshlutauppgjör Regins sem birtist eftir lokun Kauphallarinnar í gær þar sem fram kom að hagnaður félagsins hafi numið 1,5 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 0,2% í 919 milljóna króna viðskiptum. Marel lækkaði einnig um 1,1%. Eftir lokun Kauphallarinnar var tilkynnt um að Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hafi selt hlutabréf í félaginu fyrir 168 milljónir króna í dag.