*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 17. nóvember 2020 10:08

LSR selur í Marel fyrir 600 milljónir

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur selt 800 þúsund hlut í Marel. Eftir viðskiptin á LSR enn um 38 milljón hluti.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur selt 800 þúsund hluti í Marel, miðað við núverandi markaðsverð námu viðskiptin 592 milljónum króna. Eftir viðskiptin á LSR enn tæplega 38 milljón hluti í Marel sem er virði 28 milljarða króna.

Í kjölfar viðskiptanna á LSR 4,92% hlut í Marel, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar. LSR er því enn einn af stærstu hluthöfum fyrirtækisins en sá stærsti er Eyrir Invest sem á um 25% hlut.

Hlutabréf Marel hafa verið í miklum hækkunarfasa. Þegar þetta er skrifað standa þau í 740 krónum en hæst hafa þau farið í 755 krónur, í síðasta mánuði. Í upphafi árs stóðu bréf Marel í 614 krónum en lægst hafa þau farið í um 480 krónur á þessu ári í marsmánuði og hafa hækkað um rúmlega helming síðan þá.