Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins metur Haga sem góðan fjárfestingakost að sögn Hauks Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins. Þetta er haft eftir honum í Fréttablaðinu í dag. Lífeyrissjóðurinn átti í upphafi þessa árs um 1,9 prósenta hlut í félaginu sem sett var á markað í árslok 2011.

Nú í nóvemberbyrjun var samanlagður eignarhlutur deilda LSR orðinn 13,3 prósent og gerir það sjóðinn að stærsta einstaka eiganda Haga. Markaðsvirði hlutarins er nú um 3,5 milljarðar króna en gengi hluta í félaginu hefur hækkað um rúm 20 prósent frá byrjun árs.